Saga hlaupaþjálfunar Hildar
Hlaupaþjálfun Hildar var stofnuð á Selfossi í júní 2020.
Upphafið á þjálfuninni kom til vegna fjölda fyrirspurna um byrjendanámskeið í hlaupum. Hildur fékk mikið af fyrirspurnum varðandi hlaupaþjálfun og hafði alltaf haft lúmska löngun til að þjálfa hlaup og miðla þeirri þekkingu sem hún hafði öðlast bæði sem hlaupari og þjálfari.
Í fyrstu voru aðeins staðnámskeið í boði og var eftirspurnin það mikil að það sem átti að vera einn hópur varð að 2 hópum sem áttu svo eftir að stækka enn meira yfir sumarið. Þegar leið á sumarið var nokkuð ljóst að þetta yrði ekki bara sumarnámskeið. Áhuginn var það mikill. Aðstæður um haustið urðu erfiðar til að halda sameiginlegar hlaupaæfingar í stórum hóp svo þjálfunin fór yfir í að verða online - eða fjarþjálfun.
Þá opnaðist möguleiki fyrir fólk utan Selfoss og nágrennis að vera með. Síðan hefur þjálfunin vaxið og dafnað ásamt hlaupasamfélaginu sem hefur myndast hjá hlaupaþjálfun Hildar.
Þjálfunin er ekki lengur bara fyrir byrjendur í hlaupum því byrjendurnir frá því í upphafi hlaupaþjálfunarinnar eru orðnir lengra komnir í hlaupum núna og þurfa að fá meira krefjandi æfingar. Við þetta opnaðist enn annar gluggi í hlaupaþjálfun Hildar, þjálfun fyrir lengra komna hlaupara sem eru komnir uppúr því að vera byrjendur í hlaupum.
Hlaupaþjálfun Hildar er í dag fyrir mjög breiðan hóp hlaupara. Það má segja að hópurinn sé að stærstum hluta hópur fólks sem er að hlaupa fyrir sjálft sig, hlaupa sér til gagns og gamans og er ekki endilega að eltast við stór afreksmarkmið heldur það að sigra sjálfan sig en stunda samt hlaupin af metnaði og vilja fylgja prógrami, vera með þjálfara til að leita til og fá passlegt aðhald og hvatningu.
Hlaupahópur Hildar
Samfélagið sem hefur myndast í hlaupaþjálfuninni hefur orðið að svo sterkum og hvetjandi hóp að við fórum að líta á okkur sem hlaupahóp þrátt fyrir að vera dreifð um landið og víðar um heiminn. Það kom ekkert viturlegt nafn á hópinn annað en Hlaupahópur Hildar svo það festist við okkur.
Það er misjafnt hvað hlauparar staldra lengi við. Sumir prófa 1 mánuð, aðrir staldra við í nokkra mánuði, enn aðrir hafa verið með nánast frá upphafi svo það er góður kjarni sem er í þjálfun innan hlaupahópsins. Við tökum alltaf vel á móti nýju fólki. Byrjendur eru sérlega velkomnir því þar liggur oft mikið óöryggi. Við viljum efla byrjendur í hlaupum, auka sjáfstraust þeirra og draga þau út úr skelinni sem maður er oft í sem byrjandi.
Facebook hópurinn er okkar aðal hópefli. Margir óska eftir að fá að halda áfram að vera inni í hópnum þrátt fyrir að vera ekki í virkri þjálfun. Það er meira en velkomið að vera áfram hluti af okkar hlaupasamfélagi.