Um þjálfarann
Ég heiti Hildur Grímsdóttir, er Selfyssingur og bý þar með manninum mínum Elíasi Erni og börnunum okkar þeim Jakobi Mána 15 ára, Aroni Loga 11 ára, Grími Einari 2 ára og Elínu Björk fædd í apríl '23.
Ég á og rek Sjúkraþjálfun Selfoss ásamt öðrum góðum sjúkraþjálfurum og vinn þar sem sjúkraþjálfari ásamt því að vera með hlaupaþjálfun, mömmuþjálfun og fræðslufyrirlestra.
Ég er menntaður sjúkraþjálfari og ÍAK einkaþjálfari. Ég hef unnið mikið með íþróttafólki, aðallega í fótbolta og handbolta. Ég var um tíma sjúkraþjálfari hjá mfl. karla og síðar kvenna í knattspyrnu og mlf. kvenna í handbolta á Selfossi. Ég hef einnig verið sjúkraþjálfari hjá yngri landsliðum kvenna í knattspyrnu.
Eftir mikla viðveru í íþróttaheiminum ákvað ég að bæta við mig meiri þekkingu á sviði kvenheilsu og meðgöngu og fæðingarsjúkraþjálfun. Það má segja að þessi blanda sé mitt áhugasvið innan sjúkraþjálfunar, íþróttir og kvenheilsa. Ég er mjög þjálfunarmiðaður sjúkraþjálfari og vil að fólk geti orðið eins sjálfstætt og það getur með sína eigin endurhæfingu og þjálfun.
Ég elska að fræða, kenna og leiðbeina fólki. Sérstaklega þeim sem eru tilbúnir til þess að leggja á sig vinnuna sem felst í því að byggja sig upp, bæði andlega og líkamlega, sem ég tel vera órjúfanlega einingu.
Ég hef stundað allskonar íþróttir sjálf en fundið mig langbest í hlaupum. Ég er alveg gallhörð á því að samhliða hlaupum verður að stunda viðeigandi styrktarþjálfun. Þetta er mín fullkomna æfingablanda, hlaup og styrktarþjálfun ásamt smá jóga sem ég hef smám saman verið að kynnast betur og er alveg fallin fyrir. Mitt mottó er að vera nægilega sterk bæði andlega og líkamlega til að takast á við daglegt amstur og á sama tíma að geta stokkið til í hin ýmsu ögrandi verkefni án fyrirvara.
Hlaupaþjálfunin hefur verið mitt hjartans mál síðustu ár en nú mun sú þjálfun fara í frí til að skapa rými fyrir önnur verkefni hjá mér. Ég hef sótt mér viðtæka þekkingu úr hlaupaheiminum og setið mismunandi námskeið með ólíkum áherslum. Ég er alin upp af hlaupandi foreldrum og hef sjálf hlaupið með hléum frá 2008. Ég er engin afrekskona en það hefur heldur aldrei verið markmiðið mitt. Ég hef alltaf fyrst og fremst keppst við að sigra sjálfa mig og það er það sem ég vil hjálpa fólki við að gera, að sigra sjálft sig. Ég vil að æfingarnar mínar séu ögrandi en á sama tíma skemmtilegar. Útkoman af þeirri reynslu og þekkingu sem ég hef af hlaupum endurspeglast í hlaupaþjálfuninni minni.
Ég brenn fyrir þjálfun kvenna og mismunandi þjálfunaraðferða innan kvenheilsunnar. Þar hef ég bæði reynslu af hóp- og einkaþjálfun ásamt þjálfun í vatni. Þekkingu á þessu sviði hef ég öðlast í gegnum nám og starf, hef sótt marga fyrirlestra og námskeið á þessu sviði bæði hérlendis og erlendis auk þess að hafa töluverða reynslu sjálf eftir fimm meðgöngur og fæðingar og uppbyggingu og þjálfun eftir þær.
Það eru spennandi tímar framundan hjá mér í starfi. Almenn hlaupaþjálfun fer í frí og ég mun á þessu ári taka inn hlaupaþjálfun fyrir konur eftir barnsburð. Mömmunámskeiðin Móðir-Grunnur og Móðir-Framhald munu halda áfram í sal Sjúkraþjálfun Selfoss auk þess sem grunnnámskeiðið verður aðgengilegt í gegnum netið líka síðar á þessu ári.
Svo er aldrei að vita hvort að ég taki upp á því að blogga og koma með smá fræðslu hér inn á heimasíðuna ....